Beint í efni
Viskumolar

Ég á von á barni

Ef þú átt von á barni eða hefur nýlega eignast barn þarftu að huga að ýmsu. Mikilvægt er að þú kynnir þér vel réttindi þín svo þú getir notið meðgöngunnar og fæðingarorlofsins sem best.

Ung kona sitjandi úti um sumar með barnavagn

Höfundur

Bjarni Kristjánsson

Bjarni Kristjánsson

þjónusta og ráðgjöf

Vissir þú að barnshafandi fólk á rétt á að fara frá vinnu til að mæta í mæðraskoðun án þess að laun sé dregin af þeim?

Fæðingarorlof

Þú átt rétt á fæðingarorlofi við fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur. Nú er samanlagt fæðingarorlof foreldra 12 mánuðir sem skiptist jafnt á milli þeim. Auk þess er foreldrum heimilt að framselja allt að sex vikum á milli sín henti það þeirra aðstæðum betur.

Mánaðarlegar greiðslur úr fæðingarorlofssjóði til foreldris í fullu fæðingarorlofi eru 80% af meðaltali heildarlauna. Greiðslan nemur þó að hámarki 600 þúsund krónum á mánuði.

Mikilvægt er að því sé haldið til haga að ráðningarsamband milli starfsmanns og atvinnurekanda helst óbreytt í fæðingar- og foreldraorlofi. Það þýðir að þú átt rétt á að snúa aftur í sama starf og þú varst í að loknu fæðingarorlofi.

Foreldraorlof

Þú átt rétt á foreldraorlofi við fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur.  Foreldraorlof er launalaust leyfi í allt að fjóra mánuði.

Réttur til foreldraorlofs fellur niður þegar barnið nær átta ára aldri. Ef þú hefur ekki nýtt þér foreldraorlofið áður en barnið verður átta ára, virkjast sá réttur aftur komi til þess að barn greinist síðar með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun, áður en það verður átján ára.

Mikilvægt er að því sé haldið til haga að ráðningarsamband milli starfsmanns og atvinnurekanda helst óbreytt í fæðingar- og foreldraorlofi. Það þýðir að þú átt rétt á að snúa aftur í sama starf og þú varst í að loknu foreldraorlofi.