Beint í efni
Faghópar

Regl­ur um fag­hópa

Faghópar Visku vinna að framgangi sinnar fagstéttar og stuðla að aukinni þekkingu og framþróun hver á sínu sérsviði. Faghópi ber að halda utan um fræðslustarfsemi hópsins. Skilyrði fyrir stofnun faghóps innan Visku er að viðkomandi félagsfólk sé með stéttarfélagsaðild að Visku.

Formaður Visku boðar til fundar með fulltrúum faghópa árlega. Skal þar vera vettvangur umræðna, samræmingar og upplýsingamiðlunar milli faghópa Visku.

Formaður Visku og fulltrúar faghópa á vegum félagsins mynda fulltrúaráð þess. Fulltrúar faghópa eru stjórn félagsins til ráðgjafar í stefnumótandi málum og fulltrúaráð kemur saman einu  sinni á ári í samræmi við lög félagsins. Fulltrúar faghópa fá greitt fyrir fundarsetu á fulltrúaráðsfundum samkvæmt þóknunarreglum félagsins. Formaður getur boðað til fulltrúaráðsfundar oftar ef þörf krefur og boðið fleirum á fundi fulltrúaráðs.

Þegar faghópur er stofnaður þarf að uppfylla eftirfarandi skilyrði

  • Félagsfólk í Visku er heimilt að stofna faghóp á sínu fagsviði innan Visku.
  • Valið nafn faghóps og skráð lýsing og markmið hans til birtingar á vefsíðu Visku.
  • Kosinn fulltrúi faghóps, sem er félagi í Visku og tekur sæti á fulltrúaráðsfundum Visku.
  • Tilkynna þarf formanni Visku formlega um stofnun faghóps sem leggur málið formlega til afgreiðslu stjórnar Visku.

Viska stendur vörð um hagsmuni faghópa sem starfa innan félagsins

a) Viska styrkir fræðslustarfsemi faghópa með því að veita styrki til leigu á húsnæði, sem og veitingum og fyrirlesurum á námskeiðum og ráðstefnum. Hámarksfjárhæð styrks er 100.000 kr. á ári. Skilyrði er að dagskrá viðburðar hafi verið kynnt fyrir stjórn félagsins með góðum fyrirvara. Samþykki stjórnar Visku er forsenda fyrir styrkveitingu. Styrkgreiðslur eru almennt greiddar beint til þess félagsfólks sem annast framkvæmdina.

Þurfi faghópur á fé að halda til ákveðinna verkefna utan fyrrgreinds styrkveitingaramma, getur hópurinn leitað til félagsins um aðstoð við öflun þess.

Faghópar geta fundað í húsnæði félagsins, í samráði við formann Visku.

b) Viska kynnir starf faghópa félagsins á vef sínum, þar sem m.a. er að finna upplýsingar um hvernig félagsfólk Visku geti tekið þátt í starfi hópsins. Félagsfólk getur fengið upplýsingar um hvernig hægt er að taka þátt í starfi faghóps með því að senda fyrirspurn til formanns Visku, sem tengir nýliða við hópinn

c) Faghópar Visku eiga aðkomu að umræðu um kjaramál í fulltrúaráði félagsins. Sé þörf á úttekt eða nánari skoðun á kjaramálum félagsfólks í viðkomandi faghóp sem ekki er hægt að sinna af þjónustuskrifstofu félagsins, getur stjórn Visku tekið ákvörðun um að styrkja slíkt verkefni, áður en það kemur til framkvæmda 

  • Faghópur skal opinn öllu félagsfólki Visku í viðkomandi fagstétt óháð búsetu.
  • Faghópur má ekki koma fram undir merkjum Visku án þess að hafa fengið til þess samþykki stjórnar félagsins.
  • Faghóp ber að tilkynna stjórn Visku um breytingar á fulltrúa sínum.
  • Faghópur skal skila skýrslu um starfsemi sína til formanns Visku fyrir 15. janúar ár hvert og koma helstu atriði skýrslunnar fram í aðalfundargerð Visku.
  • Skili faghópur ekki skýrslu til formanns Visku tvö ár í röð getur stjórn félagsins ákveðið að leggja hann niður.